Í dag eru akkúrat fjörutíu ár síðan áhöfnin á Stíganda ÓF eitthvað, sennilega 25, fannst eftir fimm sólarhringa volk í skítköldum sjó lengst norður af Jan Mayen. Þrettán kallar í tveimur gúmmítuðrum og ekkert að éta nema gúmmíbátakex og rigningarvatn að drekka.
Stígandi var semsagt 250 tonna síldarbátur að veiðum þarna norðaustur af Jan Mayen og þeir fengu kallarnir eitthvað um 700 tonna kast. Fylltu Sigurbjörgina, stærðar dall og þurftu samt að senda haug í sjóinn aftur. Fullt af bátum allt um kring en hægt og rólega sökk báturinn, að kvöldi 23. ágúst þegar mamma litla átti 27 ára afmæli. Og vélstjórinn hann Valgeir Þór, hoppaði í gúmmíbát ásamt áhöfn allri.
Þegar Sigurbjörgin kom til Seyðisfjarðar, þremur sólarhringum síðar, fannst þeim eitthvað dúbíus að ekkert hafði heyrst til pabba og co og floti íslendinga, eins og hann lagði sig, auk erlendra skipa fór á miðin eins og herfloti til leitar. Hafði björgunarbátana rekið einar 600 mílur í norður og heppni að ekki gerði kulda og skít því þá hefðu ísbirnirnir bara komið og verið með leiðindi. Pabbi segir að bjart hafi verið allan sólarhringinn svona norðarlega og þeim varð ekkert lífshættulega kallt, en svangir voru þeir greyin.
Nú, þeir fundust svo eftir fimm sólarhringa og hratt flaug fiskisagan. Varð hálfgerð þjóðhátíð á landinu. Kokkurinn á bátnum sem fann þá bjó til samlokur fyrir svanga drengi og þeim var skellt i hlý föt. Mallinn á pabba var orðinn eins og rúsína og hann sagði mér fyrir löngu síðan að hann hefði verið gjörsamlega sprunginn eftir hálfa samloku, alveg ónýtur bara.
Jamm, skipið með skipsbrotsmenn sigldi inn Ólafsfjörðinn og voru allir bæjarbúar og nærsveitarmenn viðstaddir. Þegar það lagðist að bryggju spilaði lúðrasveit og fyrirmenn héldu hátíðarræður. Útvarpið á staðnum og alles og eftir miklar serimoníur var áhöfn loks hleypt í land að faðma og kjassa fjölskyldur sínar.
Hann pabbi minn hefur nú aldrei gert mikið úr hlutunum, hvorki þarna né yfirleitt öðru og ég man að í útvarpsviðtali sagðist hann aldrei hafa orðið verulega hræddur og ekkert hræddur við að fara aftur á sjóinn. Held samt að svona sitji nú í mönnum, svei mér þá. En það væri sko enginn Ingvar litli bró og enginn Viðar litli bró ef illa hefði farið. Maður er jú ótrúlega þakklátur fyrir að þetta skyldi fara svona vel á endanum, þó maður hafi nú verið með bleyju og snuddu og ekkert fattað í sinn haus, akkúrat þarna. En... þetta var nú upphaf tilkynningarskyldu hér á landi. Sem hefur sennilega bjargað nokkrum mannslífunum.
Lifi pabbi minn um ókomin ár. Hann er snillingur. Hann fór bara í berjamó í dag og tíndi 10 kg á árskógsströnd þar sem hann er fæddur og uppalinn. Ekki þó í tilefni dagsins því hann fattaði ekki að það væru fjörutíu ár síðan fyrr en hann sá mynd af sér í lopapeysu sem einhver hafði lánað honum og með blóm í hendi í sjónvarpinu í kvöld.
Flokkur: Bloggar | 28.8.2007 | 20:35 (breytt kl. 20:41) | Facebook
Færsluflokkar
Bloggvinir
-
malacai
-
annaeinars
-
atliar
-
aua
-
ormurormur
-
asdisran
-
astasoffia
-
birgitta
-
bjb
-
gattin
-
baenamaer
-
bestfyrir
-
tilfinningar
-
borkurgunnarsson
-
einarolafsson
-
eirikurbriem
-
ma
-
fanneybk
-
arnaeinars
-
vglilja
-
gudrunmagnea
-
zeriaph
-
gunnarb
-
gunz
-
hoax
-
nesirokk
-
veravakandi
-
heida
-
rattati
-
hemba
-
hilmir
-
kht
-
disdis
-
hlynurh
-
don
-
ghostdog
-
tru
-
jahernamig
-
ingvarvalgeirs
-
jevbmaack
-
jensgud
-
johannbj
-
jarnar
-
jon
-
lundi
-
lauola
-
meistarinn
-
marinomm
-
pala
-
peturorn
-
siggagudna
-
sigurdursig
-
snorris
-
ipanama
-
urkir
-
thoraasg
Apríl 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | ||
6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 |
13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 |
20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 |
27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.4.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 37
- Frá upphafi: 1873
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 33
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Haha algjör, frekar lítillátur greyið, það eru ekki margir svoleiðis til í heiminum..
Held ég þekki bara einn svoleiðis sjálf..
Til hamingju með fólkið þitt, gott að allt fór svona því annars væri veröldin aldeilis öðruvísi, hjá mér líka...
Guðríður Pétursdóttir, 28.8.2007 kl. 21:23
Gaman að lesa þetta Arnar.
Anna Einarsdóttir, 28.8.2007 kl. 23:13
Takk fyrir þessa sögu Arnar, ég hef sérstakan áhuga á sjóarasögum og hef ég ekki heyrt þess fyrrþ Mikið rosalegt volk hefur þetta verið og sjálfsagt hafa þeir nú verið í ullarbrókum sem hafa hjálpað og kannski étið feitt hrossakjöt eða selspik áður en þeir lentu í þessum hrakningum, en mikið rosalega hafa þeir eflaust verið svangir þegar þeir fundust. Ég verð að spyrja pabba hvort hann hafi verið að leita að þeim.
Herdís Sigurjónsdóttir, 29.8.2007 kl. 09:28
takk fyrir. Herdís: ef pabbi þinn var á sjó í ágúst 1967 þá var hann að leita. ég held svei mér þá að öll skip sem voru fullorðin og ekki lengur trillur.... hafi farið til leitar. á söguna á spólu, svona hljóðsnældu hehe, þar sem um málið var fjallað og viðtöl tekin við einhverja kalla. þetta var heilmikill viðburður allt saman og þurfti allskyns ráðamenn til að tala við kanann. eitthvað voru samskiptin í formlegri kantinum þarna.
sjálfur var ég á sjó í nokkur ár og margir kallar töluðu um þennan tíma, mundu eftir á hvaða bát þeir voru og þegar þeir fóru til leitar.
arnar valgeirsson, 29.8.2007 kl. 09:58
Man eftir hvað hann pabbi gamli sagði í viðtalinu hér um árið í radíóinu, þegar hann var spurður um viðbrögðin þegar þeir sáu skipið sem bjargaði þim. Hann sagði að það hefði verið "ósköp notanlegt", enda lítið fyrir hæsta stigs lýsingarorð.
Ég hitti tvo gamla sjóara á pöbb fyrir nokkrum árum. Þeir voru úti að skemmta sér og tala um gömlu dagana og heyrði ég að þeir hefðu verið að leita að gamla kallinum hér um árið. Bauð þeim allsnarlega í glas og lýsti yfir þakklæti mínu, enda væri ég alls ekki til ef hann hefði ekki fundist.
Annars er gamli kallinn alveg frábær. Enda er hann pabbi minn.
Ingvar Valgeirsson, 29.8.2007 kl. 13:00
Jájá. Gaman að heyra þessa sniðugu sögu. Ósköp notalegt er gott svar, haha.
En annars þá vil ég bara benda þér á það faðir vor, að þú skrifaðir "kallt" en ekki "kalt". Obbosí!
Kveðja, þinn sætasti sonur
Jökull Logi Arsenson
Popeye the sailorman (IP-tala skráð) 29.8.2007 kl. 15:18
Enda er pabbi þinn ólæs og forljótur kommúnisti, Jökull minn. Réttast væri ef ég ættleiddi þig bara til að forða þér frá frekari hörmungum.
Ingvar Valgeirsson, 29.8.2007 kl. 18:33
jæja, sonur sæll. við skulum passa okkur á að vera ekki með blammeringar hér.... nú er helsta verkefni, takk fyrir, að ná samræmdu prófunum svo einhver komist í góðan skóla og geti séð vel fyrir föður sínum í ellinni. annars er það bara ruslakall eða eitthvað og borga fimmtíuþúsundkall heim á mánuði fyrir fæði og húsnæði, nú eða meira.
ein lítil innsláttarvilla ætti ekki að vera tilefni til stórkostlegra árása á elskulegan föður sem er jú... ekkert annað en snillingur í ístlendzku....
arnar valgeirsson, 29.8.2007 kl. 18:41
... og þú gætir reyndar lært eitthvað á gítar hjá henni ingveldi, en líka ógeðslega mikið af ljótum orðum og pólítiska þroskahefti. sem mér líst nú ekki á þannig að þú mátt aðeins fara í heimsókn til hans til að fá lánaðar dvd myndir, í fylgd með fullorðnum. og líka á jólunum til að fá nammi ef ingveldur hagar sér þokkalega.
arnar valgeirsson, 29.8.2007 kl. 18:45
Áhugaverð lesning
Díta (IP-tala skráð) 29.8.2007 kl. 20:35
það er ekkert að því að vera ruslakall/kelling
en það er hörmulegt að þroskaheftur í pólitík
Hvort sem maður er forljótur kommúnisti eða vælandi sjálfstæðisdvergur
Guðríður Pétursdóttir, 29.8.2007 kl. 20:49
Jæja, pabbi. Skiptir ein villa ekki máli?
Í prófi fengi ég 9.5 í staðinn fyrir 10 bara útaf einni villu.
Ætlarðu að kenna mér það, svona rétt fyrir samræmdu prófin að stafsetningarvillur skipti ekki máli? En við skulum ekki breyta þessum samræðum úr hetjuskap afa yfir í lélegri íslensku föður míns.
-Þinn sætasti sonur,
Jökull Logi
Jökull (IP-tala skráð) 29.8.2007 kl. 20:57
Gaman að lesa þetta. Manstu hvaða bátur fann þá? Mig rámar í að Snæfugl SU20 sem var frá mínum heimabæ.
Marinó Már Marinósson, 29.8.2007 kl. 23:40
hárrétt hjá þér, marino. þeir piltarnir komu með Snæfuglinum í land þar sem skipstjórinn hét, nú eða heitir, Bóas sagði faðir minn mér. það var að vísu annar bátur sem fann þá, held ég Guðrún Jónsdóttir sem var á leið til veiða þannig að þeir fóru um borð í Snæfugl sem var á heimleið.
Ef þú þekkir kokkinn þarna þá þakkaðu honum fyrir samlokuna sem hann gaf pabba, þó hann hafi ekki borðað nema helminginn, þá fannst honum samlokan góð sko....
arnar valgeirsson, 30.8.2007 kl. 14:00
Skemmtileg lesning þetta Arnar... frændi minn, móðurbróðir, var einmitt með á þessum bát og lennti þar með einnig í þessum sjávarháska.....
Fanney Björg Karlsdóttir, 30.8.2007 kl. 14:06
Ætli kveðjur verði ekki að bíða svolítið. Bóas Jónsson, skipstjóri lést árið 1975 og alnafni hans Bóas Jónsson (Bóas kokkur, eins og við kölluðum hann), hefur trúlega framreitt samlokurnar, er látinn fyrir all mörgum árum. Þú getur séð mynd af honum hér ef þig langar: (mynd 094) http://www.simnet.is/hgard/reydfirdingabok3/index.html
Marinó Már Marinósson, 31.8.2007 kl. 00:22
Þvílíkar hetjur sem þessir menn voru. Þarna voru alveg örugglega ekki gufubað og ljósabekkir um borð......
Til hamingju með að hafa fengið pabba þinn til baka frá ísbjarnaslóðunum - fyrir 40 árum.
Ingibjörg Gunnarsdóttir, 7.9.2007 kl. 11:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.