Ittoqqortoormiit

Jamm, best að lufsast að lyklaborði.

Númer eitt: Fór á Stranglers. Algjört stööð. Þéttir og góðir og engin helgislepja yfir hinum miðaldra pönkurum.

Númer tvö: Fór á árshátíð Pennans í Súlnasalnum á Hótel Sögu. Fínt. Matur í meðallagi og félagsskapurinn skemmtilegur. Kristján Freyr stjórnaði samkundunni eins og honum eiginlega einum er lagið, ekkert yfirdrifinn en alltaf fyndinn. Fullt af happadrætti sem var ekkert happ fyrir mig, Geirfuglarnir léku fyrir þá sem innbyrt höfðu danshvetjandi drykki og svo var dreypt fram eftir nóttu. Sunnudagurinn þreyttur.

Númer þrjú: Er að plana Grænlandsferð sem verður að öllum líkindum snilld. Fer ásamt þeim Óla Kolbeini forseta Kátu biskupanna og Írisi Randvers til Scoresbysunds og dveljum við þar, eða kannski réttara sagt í Ittoqqortoormiit, í viku, einmitt þá síðustu í mars. 128 grunnskólabörn þar fá skáksett og kennslu í skák og allt útlit fyrir að okkur verði vel tekið í skólanum þar. Hef farið þrisvar til Austur-Grænlands en aldrei svona norðarlega. Ótrúlega skemmtilegt og gefandi starf og Grænlendingar eru frábært fólk og krakkarnir þar ótrúlega duglegir. Hrókurinn hefur staðið fyrir skáklandnámi þarna síðan 2003 og farnar hafa verið sjö eða átta ferðir og bráðum eiga öll börn á Austur-Grænlandi skáksett. Mörg hundruð krakkar. Hann Hrafn Jökuls, eldhuginn einstaki, kom þessu á koppinn eftir að hafa drukkið einhvern dúndurkaffibolla á kaffihúsi i miðbænum þar sem þessi hugmynd poppaði upp. Sakna þess pínulítið að hafa ekki Stefán Herberts með, formann Kalak sem er vinafélag Íslands og Grænlands. Þvílíkur dugnaðarforkur og leiðangursstjóri upp á tíu. Við reddum þessu nú samt þremenningarnir og ég heppinn að þau Óli og Íris voru að kenna í Kulusuk í vetur, við bætum hvort annað upp í þessu dæmi.

Meira um það þegar spenningurinn fer að gera vart við sig og enn meira að aflokinni ferð.

Venlig hilsen - þarf að fara að æfa dönskuna....


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingvar Valgeirsson

Skemmtu þér þokkalega á Grænlandi og endaðu ei í ísbjörnskjafti. Kauptu svo handa mér Tobblerón í fríhöbbninni.

Ingvar Valgeirsson, 14.3.2007 kl. 10:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband